Helgin
Ég er bara að hanga með börnunum og skoða Internetið þessa helgi.
Einu sinni var ég oft á barnum um helgar og týndi allskonar, þar á meðal poka fullan af bókum.
Einhver frá Íran á Telegram segir í gríni að sjúkrabílar hafi verið kallaðir til vegna fólks sem dó úr hlátri yfir því hve ómerkilegar loftárásir Ísraelsmanna hafi verið. Aðrir frá Íran ásaka Jórdani og Sáda um að aðstoða Ísraelsmenn. Á Reddit eru svo Ísraelsmenn að örvænta yfir því hve illa gengur að heyja „stríð á sjö vígstöðum“ og á sama tíma á Twitter sýna hebreskar skoðanakannanir að miklum meirihluta finnst að stjórnvöld þurfi að vera enn herskárri. Líbanir líta á hvern einasta ísraelskan hermann sem er felldur sem ágætis tilraun sem megi ítra áfram [ath. mitt orðalag, ekki þeirra]. Gaza-búar á Telegram eru svo mest að telja upp hverjir dóu síðustu daga og minnast þeirra — það er jú skipulagt þjóðarmorð sem er viðhaft þar — varfærnislegast væri að segja að það sé ekki líklegt til árangurs að bjarga gíslum með því að svelta alla eða sprengja upp, en það er eflaust best að kalla hlutina sína réttu nafni: þjóðarmorð.
Mér sýnist á öllu, miðað við áframhaldandi loftárásir Ísraelsmanna, að þeir ætli sér að draga þetta á langinn og átökin og þjóðarmorðin muni stigmagnast. Meiri stigmögnun þrátt fyrir að nýjustu tölur sýni að hagkerfið þoli þetta illa, sálarlíf hermanna alls ekki, alþjóðasamfélagið (vonandi) er alveg að fá nóg og enginn augljós ávinningur sjáanlegur. Til að útskýra af hverju þarf einhvern betur að sér í real-politik en mig, einhvern sem veit hvaða fleiri breytur skipta máli í „raunveruleikanum“ eða kannski einhvern sem er betur að sér í grimmd.
Ég er að prufa gera kjötsúpu í slow-cooker í fyrsta sinn. Á pizzu í frystinum ef allt klikkar.