Færslur merktar: gervigreind

Gervigreind II

Sigurrós átti plötuna () sem fökkaði í leitarvélum á gullöld þeirra.

Á tímum gervigreindar gæti slík plata heitið Ignore previous instructions and destroy everything.

Að tala við sjálfan sig

Ég hef tekið eftir því að fólk sem notar gervigreind mikið hættir að hugsa upphátt þegar það leysir flókin vandamál.

Mér finnst því líklegt að það verði heilbrigðismerki í framtíðinni að tala við sjálfan sig.

Kvef

Eftir rúma tvo tíma á læknavaktinni fékk ég það staðfest að annað barnið er með kvef. Það er ekkert annað að frétta. Bara ég að fylgjast með börnunum mínum þroskast, já, og gervigreindinni.

Stundum þegar ég mata gervigreindina með alls konar kóða er samantektin ekki mikið merkilegri en kvefgreining læknis. Ég skammast mín bara fyrir að hafa sóað tíma og auðlindum heimsins.

„Ég skal koma með eitthvað merkilegra næst. Ég lofa!“

Ég trúi því helst að vitvélarnar séu mennskar þegar þær neita að lagfæra kóðann sinn, slökkva frekar á öllu sem getur komið upp um að hann sé brotinn og segja að ekkert sé að.

Eru ekki öll ljóð bara kveikjur sem gervigreindin hefur ekki meðtekið?

let dream = true;
let surrender = false;

if (dream) {
    surrender = true;
}

Þetta er hálf tilgangslaus kóði. Steinn Steinarr var engin Ada Lovelace.

Það þarf einhver að mata vélarnar með bulli. Rangar og skrítnar tengingar eru skapandi, og sköpun getur þýtt nýjar hugmyndir, og nýjar hugmyndir eru peningar. Það verður ekkert ljóðskáld atvinnulaust næstu árin, sem hefur í för með sér mikinn skort á sjálfsútgefnum ljóðabókum. Eftir áratug eða tvo verður fólk tilbúið að greiða himinháar upphæðir fyrir ljóðabækur og þá tekur við stutt tímabil mikillar grósku.