Færslur merktar: heimili

Stashið fannst

Börnin fundu skógjafastashið :(

Við yfirheyrslur sagðist ég bara hafa keypt margar litlar smágjafir handa þeim, sem betur fer voru þær gjörólíkar fyrrum skógjöfum svo þau höfðu ekkert í höndunum til að ásaka mig um að vera jólasveinninn.

Ég er búinn að finna nýjan felustað og held leiknum áfram en er örlítið kvíðinn um að ég geti ekki haldið þessu endalaust áfram. Einn daginn verð ég gómaður og kannski vil ég innst inni vera gómaður.

Frosnar pizzur

Börnin rífast um hvort pantaðar pizzur, frosnar Ristorante-pizzur eða heimagerðar séu bestar, einsog er hefur Ristorante vinninginn. Það er trú sem sparar mér tíma og pening svo ég hef ekki eytt orku í að leiðrétta það.


Á samfélagsmiðlum sé ég ákall til fólks um að taka ekki þátt í því að bera út lygi, því lygin berst hraðar en sannleikur. Byssukúlur drífa lengra en pennastrokur, lækhnappurinn rífur niður færri borgir en jarðýtur. Það er fátt að gera þessa dagana annað en að dæsa yfir því hvað vel meinandi frasar eru gagnlausir. Kannski er dæsið eini sannleikurinn sem hægt er að standa við. Þetta er allt svolítið þreytt og ég eflaust mest. Frosnar Ristorante-pizzur eru bestar.


Ég er spenntur fyrir öllum bókunum í jólabókaflóðinu. Frosnar Ristorante-pizzur eru bestar. OK, sumum bókum, alveg mjög mikið. Ekki öllum. Ég vil finna orku til að lesa meira. Gera meira. Ekki éta meira af frosnum pizzum. Aldrei.

Spilling

Mér finnst spilling heimilisleg og vær. Börnin sofa best þegar þau sofa oná fisk sem kaupmaðurinn pabbi þeirra stal. Þetta er

ekki einhverjar vangaveltur heldur sannað með tímanum og verkum

manna sem ég lít upp til. Með lögum skal land byggja og heimili

með undanskotum og svikum. Þið sjáið mig ekki, bara þessi orð,

en þið getið eflaust séð fyrir ykkur mig að éta mjólkurkex í bræðiskasti. Mjög heimilislegt. Og á veggnum hvílir stolin klukka og börnin, þau eru ekki einu sinni mín. Heimilisleg og vær spilling.

Djók. Ég er að bulla. Veit ekki hvað ég á að segja og börnin eru svo sannarlega mín.