Færslur merktar: börn

Ég horfði á landsleik

Ég hef lítið horft á handbolta síðustu ár og því kom það mér á óvart að sjá að ungstirnið, Aron Pálmarsson, væri búinn að leggja skóna á hilluna. Börnin mín spurðu hvað börnin á vellinum hétu. Það vissi ég ekkert. Ég sagði þeim svo söguna af Aroni Pálmarssyni. Þau vildu ekki hlusta á hana. Ég var svolítið eins og Æskan í gamla daga og New Kids On The Block — ófá lesendabréf bárust þar sem ritstjórnin var grátbeðin að hætta að birta svona mikið um New Kids On The Block þar sem ekkert barn þekkti þá hljómsveit. Alltaf var það samt New Kids On The Block.

Svell

Ég (fullorðinn): Þetta er bara allt eitt stórt svell. Fariði varlega. Við getum slasað okkur.

Börnin: Þetta er bara allt eitt stórt svell. Góður dagur.

Spurning

„Hvað gerist þegar maður týnir sjálfum sér?"

— Matthildur, 5 ára

Stashið fannst

Börnin fundu skógjafastashið :(

Við yfirheyrslur sagðist ég bara hafa keypt margar litlar smágjafir handa þeim, sem betur fer voru þær gjörólíkar fyrrum skógjöfum svo þau höfðu ekkert í höndunum til að ásaka mig um að vera jólasveinninn.

Ég er búinn að finna nýjan felustað og held leiknum áfram en er örlítið kvíðinn um að ég geti ekki haldið þessu endalaust áfram. Einn daginn verð ég gómaður og kannski vil ég innst inni vera gómaður.

Draumur

Dreymdi að ég ætti allt í einu þrjú börn (en ekki tvö) sem ég var að teyma með mér. Ég mundi ómögulega hvað þriðja barnið héti.

Hrökk upp. „Ég er þriðja barnið!“, sofnaði strax aftur og reyndi að hlúa að þeim öllum.

Kvef

Eftir rúma tvo tíma á læknavaktinni fékk ég það staðfest að annað barnið er með kvef. Það er ekkert annað að frétta. Bara ég að fylgjast með börnunum mínum þroskast, já, og gervigreindinni.

Stundum þegar ég mata gervigreindina með alls konar kóða er samantektin ekki mikið merkilegri en kvefgreining læknis. Ég skammast mín bara fyrir að hafa sóað tíma og auðlindum heimsins.

„Ég skal koma með eitthvað merkilegra næst. Ég lofa!“

Ég trúi því helst að vitvélarnar séu mennskar þegar þær neita að lagfæra kóðann sinn, slökkva frekar á öllu sem getur komið upp um að hann sé brotinn og segja að ekkert sé að.

Kirkjuklukkur

Strákurinn hrópar:

– Einhver er að deyja, pabbi!

og heldur áfram að leika sér.

Frosnar pizzur

Börnin rífast um hvort pantaðar pizzur, frosnar Ristorante-pizzur eða heimagerðar séu bestar, einsog er hefur Ristorante vinninginn. Það er trú sem sparar mér tíma og pening svo ég hef ekki eytt orku í að leiðrétta það.


Á samfélagsmiðlum sé ég ákall til fólks um að taka ekki þátt í því að bera út lygi, því lygin berst hraðar en sannleikur. Byssukúlur drífa lengra en pennastrokur, lækhnappurinn rífur niður færri borgir en jarðýtur. Það er fátt að gera þessa dagana annað en að dæsa yfir því hvað vel meinandi frasar eru gagnlausir. Kannski er dæsið eini sannleikurinn sem hægt er að standa við. Þetta er allt svolítið þreytt og ég eflaust mest. Frosnar Ristorante-pizzur eru bestar.


Ég er spenntur fyrir öllum bókunum í jólabókaflóðinu. Frosnar Ristorante-pizzur eru bestar. OK, sumum bókum, alveg mjög mikið. Ekki öllum. Ég vil finna orku til að lesa meira. Gera meira. Ekki éta meira af frosnum pizzum. Aldrei.