lommi
Smekkleysa
AI er orðið samnefnari fyrir það sem er lélegt eða klisjukennt. Takk. Núna getum við öll þóst vera saklaus af lélegum smekk.
Að tala við sjálfan sig
Ég hef tekið eftir því að fólk sem notar gervigreind mikið hættir að hugsa upphátt þegar það leysir flókin vandamál.
Mér finnst því líklegt að það verði heilbrigðismerki í framtíðinni að tala við sjálfan sig.
Kvef
Eftir rúma tvo tíma á læknavaktinni fékk ég það staðfest að annað barnið er með kvef. Það er ekkert annað að frétta. Bara ég að fylgjast með börnunum mínum þroskast, já, og gervigreindinni.
Stundum þegar ég mata gervigreindina með alls konar kóða er samantektin ekki mikið merkilegri en kvefgreining læknis. Ég skammast mín bara fyrir að hafa sóað tíma og auðlindum heimsins.
„Ég skal koma með eitthvað merkilegra næst. Ég lofa!“
Ég trúi því helst að vitvélarnar séu mennskar þegar þær neita að lagfæra kóðann sinn, slökkva frekar á öllu sem getur komið upp um að hann sé brotinn og segja að ekkert sé að.
Giftar konur
Frænku mína dreymdi að ég væri að viðra hjónasæng. Var hún sannfærð um að ég væri að eiga við gifta konu og ráðlagði mér að hætta því. Ég sagði henni frá draumi sem mig dreymdi. Ég átti alltof mörg spil á hendi, og á borði, og var að leggja niður laufa- og hjartagosa.
„Gosi er fyrir ný tækifæri. Hjarta fyrir ástina, lauf er kannski fyrir framfarir í starfi. Þú ættir samt ekki að hitta gifta konu.“
Ég þakkaði henni fyrir ráðið, þó það nýtist mér lítið.
Klapp
Ég get ekki skrifað stafinn m. En ef ég skrifa „arilyn onroe“ áttar tölvan sig á samhenginu og bætir við m’um.
Þar af leiðandi skrifa ég mjög oft „arilyn onroe“ og stroka svo út til að fá m.
j er líka hætt að virka á þessu takkaborði, en tölvan áttar sig á því að það vantar j þegar ég skrifa „anis oplin“.
Nazi Punks Fuck Off við skattalækkun
„Fasismi einkennist að sögn bandaríska sagnfræðingsins Stanleys Paynes af… andstöðu við frjálslyndisstefnu, íhaldsstefnu og kommúnisma… Samkvæmt þessu voru Mússólíní og Hitler vitaskuld fasistar. En er Donald Trump það? Því fer fjarri. Trump er að vísu andstæðingur kommúnisma, en sækir margt í frjálslyndisstefnu (lækkun skatta) og íhaldsstefnu (stuðning við fjölskylduna).“
Hannes H. Gissurarson, 2024
Hetjur
Eitt sinn leit ég upp til Kurt Cobains og Ian Curtis. Núna eru hetjur mínar þær sem geta farið í Krónuna óundirbúnar eftir vinnu og valið í matinn án þess að bugast eða kaupa bara alltaf það sama.
Kirkjuklukkur
Strákurinn hrópar:
– Einhver er að deyja, pabbi!
og heldur áfram að leika sér.
Frosnar pizzur
Börnin rífast um hvort pantaðar pizzur, frosnar Ristorante-pizzur eða heimagerðar séu bestar, einsog er hefur Ristorante vinninginn. Það er trú sem sparar mér tíma og pening svo ég hef ekki eytt orku í að leiðrétta það.
Á samfélagsmiðlum sé ég ákall til fólks um að taka ekki þátt í því að bera út lygi, því lygin berst hraðar en sannleikur. Byssukúlur drífa lengra en pennastrokur, lækhnappurinn rífur niður færri borgir en jarðýtur. Það er fátt að gera þessa dagana annað en að dæsa yfir því hvað vel meinandi frasar eru gagnlausir. Kannski er dæsið eini sannleikurinn sem hægt er að standa við. Þetta er allt svolítið þreytt og ég eflaust mest. Frosnar Ristorante-pizzur eru bestar.
Ég er spenntur fyrir öllum bókunum í jólabókaflóðinu. Frosnar Ristorante-pizzur eru bestar. OK, sumum bókum, alveg mjög mikið. Ekki öllum. Ég vil finna orku til að lesa meira. Gera meira. Ekki éta meira af frosnum pizzum. Aldrei.
Drög að raunveruleika
Efni: Raunveruleikaþáttur
Nafn: Skuggaráðið
Þátttakendur: Stjórnmálaflokkar
Staðsetning: Hótel Glymur
Stutt skýring
Í hverjum þætti er nýr og nýr flokkur boðaður í kappræður á Hótel Glym, en það eru í raun engar kappræður. Þess í stað er stjórnmálafólkið sannfært um að enginn annar hafi komist og þau séu nú veðurteppt þarna. Því næst að eitthvað hræðilegt hafi gerst og þau séu eina stjórntæka fólkið eftir í landinu og sitji því í einhverskonar skuggaráði og þurfi að taka afdrifaríkar ákvarðanir. Þarna kynnumst við loksins innri manni stjórnmálafólks, ómengaður af skoðanakönnunum og kosningum.
DJÓK.
Trú
Ég held ég sé trúaður en ég er ekki svona hanga’eð fólki kristinn. Bara klassíska erfðasyndin, sársauki, sektarkennd og refsing … alveg einn … kristinn.
34 dagar í kosningar
Sunnudagssjálfa III
Súpan heppnaðist ágætlega, en börnunum fannst rófubitarnir of stórir.
Við fórum í göngutúr en það fór að rigna. Það fannst mínu fólki bara gaman.
Matur
Í upphafi var ofsoðin ýsa og og já, guð, það var ofsoðin ýsa og engum fannst hún góð, en engum fannst hún vond heldur. Það var bara ofsoðin ýsa. Svo kom ýsa framreidd í álbökkum, sem mátti kippa með sér heim. Afskaplega þægilegt. Fyrst með spænskri sósu, svo með tómatsósu og fólk fór að hafa orð á því hvað væri gott að finna mun minna bragð af fisknum en áður, svo fólk fór að bæta við osti til að minnka bragðið enn frekar og svo beikoni og loks kepptust fiskbúðir við að hafa sem minnst af fiski í réttunum sínum, þar til það varð næstum óhjákvæmilegt að næsta skref yrði að fiskbúðir hættu að selja fisk. Það er ómögulegt viðskiptamódel fyrir fiskbúðir að selja ekki fisk, því þá tekst þeim illa að aðgreina sig frá öðrum verslunum sem nánast undantekningalaust selja líka ekki fisk. Starfsmenn fiskbúða fóru þá að ýta hráum fisk að fólki, með þeirri bón að það ætti ekki að mauka’ann heldur að léttsteikja’ann. „Því minna sem fiskurinn er eldaður, því betra.“ Sumir hættu þá að sjóða, steikja eða gera nokkuð við fisk og borðuðu hann bara hráan.
Og það eina sem er minna en að gera ekkert, er að fá einhvern annan til að gera það fyrir þig. Það var þá sem Guð gaf okkur kebab.
Bjarni Ben á að hafa sagt eitthvað um að það mætti ekki verða of mikil blöndun menningarheima hér og Hallgrímur Helgason á að hafa svarað honum á RÚV í gær með því að spyrja hvað aðrir menningarheimar væru. Kebab?
Afsakið ef ég hef þetta rangt eftir því ég hef hvorki lesið þetta né horft, geri það vonandi brátt, en ég kúgaðist þegar ég las endursögn á orðum Hallgríms. Ofsoðin ýsa. Helvítis ofsoðna ýsan sem ég át í alltof mörg ár. Takk allir sem björguðu okkur frá því.
Ég elska kebab.