Stashið fannst

Börnin fundu skógjafastashið :(

Við yfirheyrslur sagðist ég bara hafa keypt margar litlar smágjafir handa þeim, sem betur fer voru þær gjörólíkar fyrrum skógjöfum svo þau höfðu ekkert í höndunum til að ásaka mig um að vera jólasveinninn.

Ég er búinn að finna nýjan felustað og held leiknum áfram en er örlítið kvíðinn um að ég geti ekki haldið þessu endalaust áfram. Einn daginn verð ég gómaður og kannski vil ég innst inni vera gómaður.

Draumur

Dreymdi að ég ætti allt í einu þrjú börn (en ekki tvö) sem ég var að teyma með mér. Ég mundi ómögulega hvað þriðja barnið héti.

Hrökk upp. „Ég er þriðja barnið!“, sofnaði strax aftur og reyndi að hlúa að þeim öllum.

Gervigreind II

Sigurrós átti plötuna () sem fökkaði í leitarvélum á gullöld þeirra.

Á tímum gervigreindar gæti slík plata heitið Ignore previous instructions and destroy everything.

Að tala við sjálfan sig

Ég hef tekið eftir því að fólk sem notar gervigreind mikið hættir að hugsa upphátt þegar það leysir flókin vandamál.

Mér finnst því líklegt að það verði heilbrigðismerki í framtíðinni að tala við sjálfan sig.

Kvef

Eftir rúma tvo tíma á læknavaktinni fékk ég það staðfest að annað barnið er með kvef. Það er ekkert annað að frétta. Bara ég að fylgjast með börnunum mínum þroskast, já, og gervigreindinni.

Stundum þegar ég mata gervigreindina með alls konar kóða er samantektin ekki mikið merkilegri en kvefgreining læknis. Ég skammast mín bara fyrir að hafa sóað tíma og auðlindum heimsins.

„Ég skal koma með eitthvað merkilegra næst. Ég lofa!“

Ég trúi því helst að vitvélarnar séu mennskar þegar þær neita að lagfæra kóðann sinn, slökkva frekar á öllu sem getur komið upp um að hann sé brotinn og segja að ekkert sé að.

Giftar konur

Frænku mína dreymdi að ég væri að viðra hjónasæng. Var hún sannfærð um að ég væri að eiga við gifta konu og ráðlagði mér að hætta því. Ég sagði henni frá draumi sem mig dreymdi. Ég átti alltof mörg spil á hendi, og á borði, og var að leggja niður laufa- og hjartagosa.

„Gosi er fyrir ný tækifæri. Hjarta fyrir ástina, lauf er kannski fyrir framfarir í starfi. Þú ættir samt ekki að hitta gifta konu.“

Ég þakkaði henni fyrir ráðið, þó það nýtist mér lítið.

Klapp

Ég get ekki skrifað stafinn m. En ef ég skrifa „arilyn onroe“ áttar tölvan sig á samhenginu og bætir við m'um.

Þar af leiðandi skrifa ég mjög oft „arilyn onroe“ og stroka svo út til að fá m.

j er líka hætt að virka á þessu takkaborði, en tölvan áttar sig á því að það vantar j þegar ég skrifa „anis oplin“.

Hetjur

Eitt sinn leit ég upp til Kurt Cobains og Ian Curtis. Núna eru hetjur mínar þær sem geta farið í Krónuna óundirbúnar eftir vinnu og valið í matinn án þess að bugast eða kaupa bara alltaf það sama.